Erlent

Einfrumungur drepur þrjá drengi

Heilbrigðisyfirvöld í Flórída aðvara nú fólk um að halda sig frá vötnum sem eru meir en 28 gráðu heit á Orlando-svæðinu því lífshættulegur einfrumungur hefur tekið sér bólfestu í þeim. Aðvörunin kemur í kjölfar þess að þrír ungir drengir hafa látist með skömmu millibili af völdum þessa einfrumungs.

Einfrumungurinn ber vísindaheitið naegleria fowleri og er svo lítill að ekki er hægt að sjá hann með berum augum. Talið er að drengirnir hafi andað einfrumungnum að sér en ef hann kemst í samband við heila manns leiðir slíkt til dauða í öllum tilvikum.

Enn sem komið er hefur einfrumungsins aðeins orðið var í vötnum í grennd við Orlando en heilbirgðisyfirvöld óttast að hann berist víðar um Flórídaskagann. Um er að ræða mjög sjaldgæfa tegund af einfrumungi og eru aðeins til 24 skráð tilfelli af honum á síðustu 20 árum.

Heilbrigðisyfirvöld í Flórída vita ekki nákvæmlega hvað hefur valdið því að einfrumungurinn blossar upp núna en helst er hækkandi hitastigi kennt um. Nú er til athugunar hvort loka eigi fyrir aðgang almennings að mörgum vötnum á Orlando-svæðinu vegna þessa vandamáls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×