Erlent

Bandaríkjamenn ætla að endurskoða fjárhagsaðstoð við Pakistan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna,  er ósátt við ákvörðun Musharrafs, forseta Pakistan.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er ósátt við ákvörðun Musharrafs, forseta Pakistan.

Bandaríkjamenn munu endurskoða alla fjárhagsaðstoð við Pakistana, vegna ákvörðunar Musharrafs forseta um að lýsa yfir neyðarlögum í landinu. Þetta segir Condolezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Pakistanir hafa hingað til verið ein helsta bandaþjóð þeirra í baráttunni gegn hryðjuverkum.

„Augljóslega hafa aðstæður breyst og við verðum að endurskoða stöðuna," sagði Rice og benti á að málið væri flókið vegna þess að stór hluti af þeim fjármunum sem Pakistanir fengu frá Bandaríkjunum færu í gagnhryðjuverkastarfsemi.

Rice sagði að stjórnvöld í Bandaríkjunum hefðu ekki fengið að vita um fyrirætlanir Musharrafs áður en hann hrifsaði til sín völdin í gær. „Ákvörðun hans veldur mér vonbrigðum," sagði Rice.

Shaukat Aziz, forsætisráðherra í Pakistan, segir að neyðarlög muni gilda eins lengi og þurfa þykir og hugsanlega muni kosningar í landinu frestast vegna þeirra. Fyrirhugað var að þær færu fram í janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×