Erlent

Ráðist gegn sterasölu í Danmörku

Lögregla í Danmörku lét til skarar skríða á fjölmörgum stöðum í landinu í dag í átaki gegn notkun stera og annarra ólöglegra lyfja.

Áhlaupið var liður í alþjóðlegum aðgerðum sem ganga undir nafninu Raw Deal og miða að því að draga úr lyfjaneyslu í íþróttum. Lögreglan í Danmörku leitaði á 26 stöðum í landinu þar sem íbúar voru grunaðir um að hafa keypt anabólíska stera á Netinu.

Fram kemur á vef Jótlandspóstsins að bandaríska fíkniefnalögreglan, DEA, hafi komist að því að hópur Kínverja hafi selt slík efni á Netinu til kaupenda um allan heim, þar á meðal til Danmerkur. Rannsókn lögreglunnar hafi leitt í ljós að hópur Dana hafi keypt stera í slíku magni að það geti ekki verið eingöngu til eigin nota.

Í aðgerðum sínum í dag lagði lögregla hald á töluvert magn stera á einum af stöðunum sem rannsakaðir voru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×