Erlent

Höfuðklútar bannaðir í skólum í Kosovo

MYND/Getty Images
Þrír nemendur í Kosovo hafa verið reknir úr skóla fyrir að bera höfuðklút. Ákvörðunin endurspeglar umræður um höfuðklúta sem ganga nú um Evrópu. Umræðan flækir baráttu fyrir sjálfstæði Kosovo, en héraðið hefur verið undir stórn Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1999. Stúlkurnar þrjár eru nemendur í skóla í Srbica í miðhluta Kosovo. Meirihluti Albana í héraðinu eru múslimar, en flestir í héraðinu eru veraldlegir. Umræðan í Kosovo er svipuð þeirri sem farið hefur fram í Frakklandi, Tyrklandi, Bretlandi og víðar í Evrópu um hvort veraldleg svæði eigi að virða rétt trúarbragða. Sumir óttast að það gæti haft neikvæð áhrif á sjálfstæðisbaráttu héraðsins ef gefið er í skyn að múslimar séu ráðandi. Fatmire Jashari, ein nemendanna, segir að þrátt fyrir brottvikninguna finnist henni rétt að vera með klútinn vegna trúar sinnar. Hún muni frekar hætta í skóla en taka af sér klútinn. Hamdi Nuredini stjórnandi skólans staðhæfir að yfirvöld leyfi ekki höfuðklúta eða önnur trúartákn í skólanum. Hann óttast að án bannsins muni tvö hundruð stúlkur mæta með höfuðklúta og þá þurfi að spyrja um hvers konar skóla sé að ræða, trúarskóla eða ríkisskóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×