Erlent

Jesúbarninu stolið í Flórída

Aðstandendur jólasýningar á Miami hafa fest GPS-staðsetningartæki á styttu af Jesúbarninu eftir að sams konar styttu á sýningunni var stolið.

Bandaríska blaðið Miami Herald greinir frá því að Jesúbarnið hafi verið boltað niður í jötuna á milli foreldra sinna en það hafi ekki komið í veg fyrir að óprúttnir aðilar hafi haft það á brott með sér. Foreldrar Jesú, María og Jósef, sem nánast eru í fullri stærð, voru hins vegar látin í friði en aðstandendur sýningarinnar hyggjast ekki taka neina áhættu og munu festa GPS-tæki á þau líka.

Það var lögfræðingur af gyðingaættum, sem las um þjófnaðinn á Netinu, sem ákvað að greiða fyrir nýja styttu af Jesúbarninu en hann sagði í samtali við Miami Herald: „Hvernig getur nokkur maður stolið Jesúbarninu?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×