Erlent

Mugabe í forsetaframboði á næsta ári

Robert Mugabe er umdeildur leiðtogi.
Robert Mugabe er umdeildur leiðtogi. MYND/AP

Robert Mugabe, hinn aldni forseti Simbabve, verður frambjóðandi stjórnarflokksins ZANU-PF í forsetakosningum sem fram fara á næsta ári. Þetta tilkynnti einn af talsmönnum flokksins á þingi hans í dag.

Flokksfélagar Mugabes fögnuðu tíðindunum og hlaut hann stuðning allra héraðsfélaga flokksins í landinu. Mugabe, sem er 83 ára, hafði áður lýst því yfir að hann hefði áhuga á að sitja annað kjörtímabil í stóli forseta en hann verður 88 ára þegar því lýkur.

Mugabe hefur setið við stjórnvölinn frá árinu 1980 og hefur sætt gagnrýni fyrir að traðka á mannréttindum í landinu og berja niður stjórnarandstöðu. Þá hefur efnahagslíf Simbabve verið í molum síðustu ár og verðbólga er mörg þúsund prósent.

Evrópuþjóðir hafa gagnrýnt Mugabe fyrir stjórnarhætti hans, nú síðast Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem sagði Mugabe til syndanna vegna meðferðar hans á þjóð sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×