Erlent

John Darwin og leyniklefinn

Týndi ræðarinn John Darwin bjó með eiginkonu sinni á Englandi í þrjú ár eftir að hann var talinn hafa látist í sjóslysi. Þegar ættingjar og vinir eiginkonunnar komu í heimsókn snaraðist hann inn í sérútbúinn felustað sem hjónin höfðu búið til. Fylgsnið var vandlega falið á bakvið fataskáp á heimili þeirra hjóna. Þetta kemur fram í viðtali við eiginkonuna í breskum fjölmiðlum í dag.

Þar lýsir hún því hvernig Darwin hafi snúið til baka ári eftir að hann hvarf. Hann hafi fljótlega vanist inniverunni, hann hafi verið mikið á Netinu og horft á sjónvarpið auk þess að taka þátt í heimilisstörfunum. Í þau fáu skipti sem hann fór út fyrir hússins dyr dulbjó hann sig sem gamalmenni með staf og hatt. Hún segir að eftir fimm ára feluleik hafi Darwin fengið nóg af því að þykjast vera dáinn og því hafi hann ákveðið að snúa aftur. Hann hafi einnig saknað sona sinna tveggja, sem hafa nú lýst því yfir að þeir vilji ekki hitta foreldra sína aftur. Þeir misstu að sögn móður þeirra aldrei vonina um að finna pabba sinn aftur og könnuðu reglulega fréttir af týndu fólki sem hafði fundist í von um að þar væri karlinn kominn. Þeim brá því illilega í brún þegar þeir komust að því að allan tímann hafi hann verið í næsta herbergi.

Eiginkonan er enn í Panama þar sem hjónin keyptu sér hús í fyrra en búist er við henni til Englands fljótlega. Talið er víst að hún verði handtekin við heimkomuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×