Erlent

Rudd vill miðla loftlagsmálum milli Kínverja og vesturvelda

Kevin Rudd boðar nýjar áherslur Ástrala í umhverfismálum.
Kevin Rudd boðar nýjar áherslur Ástrala í umhverfismálum. MYND/AFP

Kevin Rudd, nýr forsætisráðherra Ástralíu, hefur boðist til þess að vera milligöngumaður milli Kínverja og vesturveldanna í samningaviðræðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Rudd átti samtal við Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, í dag þar sem hann viðraði hugmyndina og eftir því sem erlendir miðlar segja tók Jiabao vel í hana. Mjög er þrýst á Kínverja að setja sér markmið um draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á loftlagsráðstefnunni í Balí sem nú stendur yfir. Mikill uppgangur hefur verið í kínversku efnahagslífi undanfarin misseri og óttast stjórnvöld þar að kvaðir um losun gróðurhúsalofttegunda dragi úr þeirri uppsveiflu.

Ástralar hafa nú skyndilega stokkið fram á sjónarsviðið í umhverfismálum eftir að Rudd tók við sem forsætisráðherra eftir þingkosningar á dögunum. Eitt af fyrstu verkum hans var að undirrita Kyoto-bókunina en því hafði forveri hans í embætti forsætisráðherra, John Howard, ætíð hafnað. Rudd hefur sagt að hann vilji að Ástralía verði í forystu í baráttunni við loftlagsbreytingar á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×