Erlent

Gibbons lét vel af fangelsisdvöl í Súdan

Gillian Gibbons, breski kennarinn sem dæmdur var til fangelsisvistar í Súdan fyrir að leyfa nemendum sínum að nefna bangsa Múhameð, segir að vel hafi verið komið fram við hana þann stutta tíma sem hún dvaldi í fangelsi.

Gibbons kom til Bretlands í morgun eftir að forseti Súdans hafði náðað hana og urðu miklir fagnaðarfundir með Gibbons og börnum hennar tveimur á Heathrow-flugvelli.

Gibbons var alls átta daga í haldi í Kartúm, höfuðborg Súdans, vegna bangsamálsins en það var álitið guðlast af hennar hálfu að leyfa nemendum sínum að nefna bangsa eftir spámanninum Múhameð.

Gibbons sagði við komuna til Bretlands að málið væri allt hið ótrúlegasta en að henni hefði þótt sárt að yfirgefa Súdan. „Súdanar eru ákaflega elskuleg og gjafmild þjóð og mér leið vel í landinu þar til þetta mál kom upp," sagði Gibbons.

Þá þakkaði hún Ahmed lávarði og Warsi barónessu, tveimur breskum múslímum sem hlutuðust til um lausn hennar úr fangelsi. Aðspurð hvort hún myndi halda áfram kennslu sagði Gibbons að hún væri nú að leita að starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×