Erlent

Bandaríkjamenn einangraðir í umhverfismálum

Tveggja vikna ráðstefna um loftslagsbreytingar hófst í Bali í morgun með lófataki fyrir ákvörðun nýrrar stjórnar í Ástralíu að skrifa undir Kyoto bókunina.

Með ákvörðun nýrrar stjórnar Ástralíu er Bandaríkjastjórn einangruð meðal þróaðra iðnríkja sem sú eina sem ekki á aðild að Kyoto bókuninni. Með Kyoto-bókuninni einsettu 36 iðnríki sér að minnka útblástur á gróðurhúsalofttegundum þannig að þau verði á næstu fjórum árum komin fimm prósent niður fyrir útblástur þeirra árið 1990. Bandaríkin samþykktu engar slíkar takmarkanir á sínum útblæstri.

Tilgangurinn með ráðstefnunni í Bali er að undirbúa nýjar samningaviðræður ríkja heims um leiðir til að minnka hlýnun jarðar á næstu áratugum. Bandarísku samningamennirnir báðu fólk í dag að virða þá ákvörðun Bush-stjórnarinnar að staðfesta ekki Kyoto bókunina en sögðust vilja taka virkan þátt í að ná samkomulagi í Bali.

Sameinuðu þjóðirnar segja að þjóðir heims þurfi að skera niður útblástur um fimmtíu til áttatíu og fimm prósent frá því sem var um aldamótin fyrir árið 2050. Nýleg skýrsla loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna sýndi fram á það í miklum smáatriðum afleiðingar þess að gera ekkert eða lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×