Erlent

ESB gagnrýnir kosningabaráttuna í Rússlandi

Evrópusambandið og kosningaeftirlitsmenn gagnrýna framkvæmd þingkosninga í Rússlandi en þar vann flokkur Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta, Sameinað Rússland, yfirburðasigur og hlaut nærri tvo þriðju atkvæða.

Benita Ferrero-Waldner, yfirmaður ytri mála hjá ESB, sagðist á blaðamannafundi í morgun vilja bíða eftir skýrslum kosningeftirlitsmanna til þess að fella endanlegan dóm um kosningarnar. Hún benti hins vegar á að kosningabaráttan hefði ekki verið eins og best verður á kosið þar sem mál- og fundafrelsi hefði verið virt að vettugi.

Kosningaeftirlitsmenn á vegum Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sögðu einnig á blaðamannafundi í Moskvu í morgun að kosningarnar hefðu ekki uppfyllt kröfur stofnananna um lýðræðislegar kosningar. Flokkar hefðu ekki staðið jafnir í kosningabaráttunni.

Eins og fram hefur komið í fréttum stóð til að ÖSE sendi stóran hóp kosningaeftirlitsmanna til þess að fylgjast með kosningunum en rússnesk stjórnvöld settu ýmsrar hömlur á starf þeirra og töfðu afgreiðslu vegabréfsáritana. Því var ákveðið að senda mun smærri hóp þingmanna til þess að fylgjast með kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×