Erlent

Heilbrigðismál eru helsta bitbein demókrata

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hillary vill bæta heilbrigðiskerfið.
Hillary vill bæta heilbrigðiskerfið.
Eitt mesta deilumál demókrata fyrir forkosningarnar um forsetaembættið í Bandaríkjunum snýst um heilbrigðismál. Hillary Clinton forsetaframbjóðandi segir helsta andstæðing sinn, Barack Obama hafa óskýra stefnu í málaflokknum.

Hillary segir að demókratar þurfi frambjóðanda sem sé talsmaður fyrir heilbrigðiskerfi sem þjóni öllum Bandaríkjamönnum óháð stöðu þeirra eða efnahag. Þeir demókratar sem geti ekki barist fyrir slíku kerfi séu að taka afstöðu með málstað repúblikana.

Obama segir hins vegar að Hillary hafi ekki gert grein fyrir því hvernig hún ætli að tryggja almenningi betri heilbrigðisþjónustu. Obama segir jafnframt að hans áætlanir gangi út á það að gera heilbrigðisþjónustuna ódýrari og þannig geti hún þjónað sem flestum.

Fyrir fimmtán árum fór Hillary fyrir verkefni sem miðaði að því að koma á almennu heilbrigðistryggingakerfi, en þá var Bill Clinton eiginmaður hennar forseti. Málið var stöðvað í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Nú segist Hillary vera tilbúinn til þess að berjast fyrir málstað sínum á nýjan leik. Áætlanir hennar fela í sér að gera öllum Bandaríkjamönnum skylt að hafa heilbrigðistryggingar. Þeir sem hafi ekki tryggingar nú þegar geti valið sér samskonar tryggingar og fulltrúadeildarþingmenn hafi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×