Erlent

Óeirðaseggir verða dregnir fyrir dóm

MYND/AP

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hét því að draga þá sem skotið hefðu á lögregluna í óeirðum í París síðustu kvöld fyrir dóm.

Þessi orð lét forsetinn falla eftir að hafa heimsótt nokkra þeirra lögreglumanna sem meiddust í óeirðunum á sunnudags- og mánudagskvöld, en alls eru 120 sárir eftir átökin. Minna var um átök í gær.

Óeirðirnar hófust eftir að tvö ungmenni á vélhjóli létust í árekstri við lögregluna í Villiers-le-Bel, úthverfi Parísar. Ungmenni í hverfinu og fjölskyldur piltanna segja lögregluna hafa keyrt inn í vélhjólið en því hafnar lögregla. Sarkozy átti einnig fund með aðstandendum piltanna, sem báðir eru af norður-afrískum uppruna, og sagði að dauði þeirra yrði rannsakaður.

Í kjölfarið átti hann fund með forsætisráðherranum Francois Fillon, innanríkisráðherranum Michele Alliot-Marie og ýmsum öðrum úr ríkisstjórninni. Er Sarkozy mikið í mun að koma í veg fyrir að mál þróist á sama hátt og í óeirðum í landinu árið 2005. Þær mátti einnig rekja til dauða tvegggja pilta. Óeirðirnar þá voru þær mestu í Frakklandi í 40 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×