Erlent

Ekki friðvænlegt á Gasa þrátt fyrir friðarsamninga

Friðarráðstefnunni í Annapolis var mótmælt á Gasaströndinni í dag.
Friðarráðstefnunni í Annapolis var mótmælt á Gasaströndinni í dag. MYND/AP

Á meðan leiðtogar Ísraela og Palestínumanna sitja á friðarfundum í Annapolis í Bandaríkjunum er allt annað en friðvænlegt á Gasaströndinni.

Skömmu eftir að leiðtogarnir samþykktu að hefja þegar tvíhliða viðræður um frið og ljúka þeim með formlegum samningi á næsta ári gerðu Ísraelar loftárásir á Hamas-liða á suðurhluta Gasa. Þetta kemur fram í ísraelska dagblaðinu Haaretz. Þar er haft eftir heimildarmanni innan ísraelska hersins að árásin hafi verið svar við árásum Hamas-liða á ísraelsk skotmörk í gær og í dag.

Hamas-liðar hafa töglin og hagldirnar á Gasasvæðinu og viðurkenna ekki Ísraelsríki. Þeir höfnuðu því að taka þátt í friðarrráðstefnunni í Annapolis þar sem Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna og Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sömdu um að hefja þegar viðræður um frið og leysa öll deilumál um landamæri ríkjanna. Það er því óljóst hvaða áhrif samningarnir í dag hafa á ástandið á Gasasvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×