Erlent

Asíuríki reyna að ná samkomulagi í loftlagsmálum

MYND/AP

Leiðtogar Asíuríkja reyna að stilla saman strengi sína fyrir ráðstefnu um loftslagsmál sem hefst á Balí í Indónesíu í næsta mánuði. Sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum segir mikilvægt að ríki álfunnar taki þátt í umræðunum á Balí af fulltri alvöru svo árangur náist.

Á Balí verður byrjað að ræða hvað tekur við eftir að gildistími Kyoto-bókunarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda rennur út 2012. Taílensk fyrirtæki efndu til fundar um loftslagsmál í Bangkok í morgun. Hann sóttu leiðtogar Taílands, Kína, Hong Kong, Japans, Suður-Kóreu og einnig Bandaríkjanna.

Han Seung-Soo, fyrrverandi varaforsætisráðherra Suður-Kóreu, er nú sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum. Hann ávarpaði fundinn og sagði það ranghugmynd margra í Asíu að ekki væri til fé í baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Hann hvatti leiðtoga á fundinum til að láta kanna kostnaðinn við það að minnka útblástur nú og bera það saman við þau fjárútlát sem yrðu þegar yrði of seint að bregðast við vandamálum vegna loftslagsbreytinga í framtíðinni.

Seung-Soo lagði áherslu á að engin endanleg niðurstaða myndi fást eftir fundinn á Balí. Þar yrðu frekari samningaviðræður skipulagðar. Það yrði að hafa hraðar hendur enda lagt upp með að ljúka viðræðum á vettvangi alþjóðanefnda fyrir lok árs 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×