Erlent

Dönsk stjórnvöld vilja að ESB mótmæli dómi í Sádi-Arabíu

MYND/AP

Dönsk stjórnvöld hyggjast hafa forystu um það innan ESB að brugðist verði við dómi í Sádi-Arabíu yfir 19 ára stúlku sem var nauðgað.

Stúlkan var dæmd til 200 vandarhagga og í hálfs árs fangelsi fyrir það eitt að hafa verið á ferð í bíl með manni sem ekki var skyldur henni. Bíllinn var stöðvaður af hópi sjö manna sem nauðguðu bæði stúlkunni og manninum sem var jafnaldri og samstúdent hennar. Ströng sharia-lög sem byggjast á íslam gilda í Sádi-Arabíu.

Fram kemur í Kristilega dagblaðinu í Danmörku að tveir fyrrverandi utanríkisráðherrar Danmerkur vilji að Danir hlutist til um viðbrögð hjá Evrópusambandinu vegna dómsins. „Ástæðan fyrir því að ekkert er gert er olían. Ég ímynda mér að enginn vilji eiga í deildum við landið (Sádi-Arabíu) í dag vegna þess að olíuverð er svo hátt. Ég tel hins vegar að ESB eigi að beita sér í málinu og gagnrýna dómskerfið í þessu landi," segir Niels Helveg Petersen, annar utanríkisráðherranna.

Per Stig Möller, núverandi utanríkisráðherra Danmerkur, segir sendiherra landsins í Sádi-Arabíu þegar hafa óskað eftir frekari upplýsingum um málið og þá hefur danska utanríkisráðuneytið haft samband við framkvæmdastjórn ESB til þess að knýja á um sameiginlega afstöðu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×