Erlent

YouTube hótun á skóla í Noregi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Hótunin er svipuð þeirri sem morðinginn í Tuusula setti á YouTube áður en hann lét til skarar skríða.
Hótunin er svipuð þeirri sem morðinginn í Tuusula setti á YouTube áður en hann lét til skarar skríða. MYND/AFP

Einn er í haldi lögreglunnar í Noregi eftir hótanir á YouTube gegn framhaldsskóla nálægt Bergen. Hinn grunaði var handtekinn eftir að hótanir gegn Erdal Skólanum á Askøy eyju voru birtar á vefnum. Odd Dale lögreglustjóri sagði að fylgst hefði verið með manninum frá því í gær en hann hefur ekki verið nafngreindur.

Dale sagði að kona í Englandi hefði fundið myndbrotið af skólanum í Askøy ásamt hótun með dagsetningunni 19. nóvember. Myndbrotið var með enskum texta og tengdist umfjöllun skotárásarinnar í finnskum skóla sem kostaði átta manns lífið 7. nóvember síðastliðinn. Myndbrotið var sett á YouTube síðasta fimmtudagskvöld. Endurnýjuð útgáfa var síðan birt á föstudag. Með henni var lag John Lennon „Working class hero."

Allir nemendur Askøy skólans fóru í gegnum vopnaleit í morgun en þeir eru um 280. Leiv Jan Nielsen skólastjóri sagði yfirvöld taka hótunina alvarlega; „ekki síst í ljósi atburðanna í Finnlandi."

Yfirvöld íhuguðu að loka skólanum í dag, en ákváðu að öruggt væri að halda starfseminni áfram með varúðarráðstöfunum. Nielsen hefur óskað eftir að nemendur láti vita ef þeir hafi einhverja vitneskju um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×