Erlent

Komið í veg fyrir fjöldamorð í þýskum skóla

Þýska lögreglan tilkynnti í gær að henni hefði tekist að koma í veg fyrir fjöldamorð við menntaskóla í borginni Köln. Tveir námsmenn voru handteknir og hefur annar þeirra framið sjálfsmorð.

Árásin átti að eiga sér stað á morgun þriðjudag en þá er ár liðið frá annarri skotárás í skóla í Þýskalandi. Tveir af nemendum skólans annar 17 ára og hinn árinu eldri voru yfirheyrðir af lögreglunni og einum kennara skólans á föstudag og í framhaldi af því framdi sá yngri sjálfsmorð með því að stökkva í veg fyrir járnbrautarlest.

Við leit í hýbýlum nemendanna fundust m.a. loftbyssur og lásbogar og listi með nemendum og kennurum sem hugsanlega voru skotmörk í fyrirhugaðri árás. Jafnframt fundust leiðbeiningum um hvernig ætti að búa til rörsprengju en ekkert sprengiefni fannst.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar komst hún á sporið um fyrirhugaða árás í framhaldi af því að á vefsíðu yngri nemendans fannst efni þar sem skólaárásin í Colombine í Bandaríkjunum 1999 er lofsungin.

Eldri nemandinn er nú í haldi lögreglunnar en í yfirheyrslum yfir honum hefur komið fram að báðir vildu þeir drepa og særa annað fólk og ætluðu svo að fremja sjálfsmorð í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×