Erlent

Hvít-Rússar mótmæla bandarískum refsiaðgerðum

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, með hershöfðingjum.
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, með hershöfðingjum. MYND/AFP

Stjórnvöld í Hvíta-Rússland kölluðu í morgun sendiherra Bandaríkjamanna á sinn fund til að mótmæla þeirri ákvörðun bandarískra stjórnvalda að frysta bankainnistæður hvít-rússneska olíufyrirtækisins Belnekeftekhim og setja það á svartan lista. Telja Hvít-Rússar að Bandaríkjamenn hafi með þessu rofið viðskiptasáttmála sem er í gildi milli landanna.

Belnekeftekhim er ríkisrekið fyrirtæki og sérhæfir sig í olíuhreinsun og olíuefnaframleiðslu. Krefjast Hvít-Rússar að Bandaríkjamenn taki ákvörðun sína til baka.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem Bandaríkjamenn beita Hvít-Rússa refsiaðgerðum. Bandaríkjamenn hafa sakað stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi um ólýðræðisleg vinnubrögð. Sérstaklega beinist gagnrýnin að Alexander Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands, en Bandaríkjamenn hafa kallað hann síðasta einræðisherra Evrópu. Í gildi er bann sem meinar honum að koma til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×