Erlent

Hollenskur húsgagnaþjófur handtekinn á hóteli

Breki Logason skrifar

Hollenskur unglingur hefur veirð handtekinn fyrir að stela húsgögnum úr "herbergjum" á Habbo Hotel í netheimum.

Habbo Hotel er þrívíður leikur sem hægt er að spila á netinu en þar býrðu til persónu og kaupir húsgögn. Hollendingurinn er hinsvegar sakaður um að hafa stolið húsgögnum fyrir 4000 evrur en húsgögnin voru keypt með alvöru peningum.

Fimm 15 ára unglingar hafa einnig verið yfirheyrðir af lögreglu sem fékk ábendingu frá eiganda síðunnar. Sexmenningarnir eru grunaðir um að hafa komið húsgögnunum fyrir í sínum eigin Habbo herbergjum.

Samkvæmt eigendum síðunnar komust unglingarnir yfir lykilorð og gátu þannig fært til húsgögn úr herbergjum annarra og yfir í sín.

Spilararnir í Habbo leiknum kaupa sér inneignir með alvöru peningum en fyrir þær geta þeir keypt sér allskonar húsgögn og tekið þátt í leikjum í heimi Habbos.

Um sex milljón manna í yfir 30 löndum spilar Habbo Hotel í hverjum mánuði.

Þjófnaður í leikjum á netinu er vaxandi vandamál en árið 2005 var kínverskur spilari stunginn til bana eftir að hafa stolið sverði í tölvuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×