Erlent

Danska ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt fyrstu útgönguspám

Fyrstu útgönguspár benda til þess að Anders Fogh Rasmussen verði áfram forsætisráðherra Danmerkur.
Fyrstu útgönguspár benda til þess að Anders Fogh Rasmussen verði áfram forsætisráðherra Danmerkur. MYND/AP

Ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussens, forstætisráðherra Danmerkur, heldur velli samkvæmt fyrstu útgönguspá sem birt er í tengslum við þingkosningar í landinu í dag.

Það er metroexpress.dk sem birtir útgönguspána og hún sýnir að ríkisstjórnarflokkarinri Venstre, Íhaldsflokkurinn og Danski þjóðarflokkurinn fá 89 þingmenn en Jafnaðarmannaflokkurinn, Sósíalíski þjóðarflokkurinn, Einingalistinn og róttækir ná aðeins inn 79 mönnum.

Þetta þýðir jafnframt að ríkisstjórnin þarf ekki að reiða sig á stuðning Nýja bandalagsins undir forystu Nasers Khaders en útlit var fyrir það fyrr í kosningabaráttunni. Hins vegar gæti ríkisstjórnin þurft að reiða sig á stuðning þingmanns frá Færeyjum til þess að halda tryggum meirihluta.

Útgönguspáin sýnir enn fremur að róttækir missi átta af 17 þingmönnum sínum og þá virðist Einingarlistinnn ekki ná manni inn á þing. Hins vegar er útlit fyrir að Sósíalíski þjóðarflokkurinn, systurflokkur Vinstri - grænna, tvöfaldi fylgi sitt og fái rúmlega tólf prósent atkvæða í kosningunum og 22 fulltrúa á þing.

Um helmingur þeirra fjögurra milljóna Dana sem er á kjörskrá hafði neytt atkvæðisréttar síns um miðjan dag í dag en kjörstöðum verður lokað klukkan sjö að íslenskum tíma. Úrslit kosninganna ættu svo að liggja fyrir um tíuleytið í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×