Erlent

Kvarta undan því að hafa ekki verið sagt hvað gekk á

Einhverjir meiddust, en þó ekki alvarlega, og skelfing greip um sig meðal farþega, þegar ferjan Norræna valt mikið til annarar hliðar í óveðri á milli Noregs og Færeyja í fyrrinótt og aðalvélin drap á sér.

Talið er að í veltunni hafi skrúfa skipsins farið upp úr sjó og yfirsnúningur komið á aðalvélina þannig að sjálfvirkur búnaður drap á vélinni. Rak skipið ljóslaust undan veðri og vindi í um það bil 20 mínútur eða þar til varaafl komst á. Kom þá í ljós að jafnvægisuggar höfðu laskast, bílar skemmst í lest og leirtau hrokkið úr skorðum sínum og brotnað í matsölum skipsins.

Alls voru 325 manns um borð og er skipið væntanlegt til Færeyja í kvöld. Farþegar hafa kvartað yfir því í viðtölum við færeyska útvarpið að þeir hafi ekkert verið látnir vita hvað gekk á á meðan skipið rak myrkvað og vélarvana í stórsjó.

Þetta er þriðja áfallið sem ferjan verður fyrir síðan hún var tekin í notkun fyrir nokkrum árum. Hún varð fyrir ámóta áfalli á leið milli Færeyja og Íslands í hitteðfyrra og svo rakst hún á bryggjukant í óveðri í Færeyjum sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×