Erlent

Þúsundir Breta flýja undan sjávarflóðbylgju

Tugir þúsunda Breta búa sig nú undir eitt versta sjávarflóð í áratugi sem skella mun á austurströnd landsins eftir um tvo tíma. Starfsmenn flóðavarna Hollands eru í viðbragðsstöðu af sömu sökum.

Lögregla og slökkvilið gekk hús úr húsi í gærkvöldi og nótt og bað íbúana um að rýma heimili sín og koma sér fyrir í skólum og opinberum stofnunum sem breytt hefur verið í neyðarskýli.

Talið er að flóðbylgjan sem stefnir á landið frá Norðursjó í kjölfara storms þar geti orðið allt að þriggja metra há þegar hún skellur á norðausturströnd Englands.

Það eru einkum héruðin Norfolk og Kent sem eru í hættu og flóðgáttunum við Thames ánna hefur verið lokað. Mesta hættan er talin vera í bæjunum Great Yarmouth og Lowestoft en þar búa samanlagt yfir tíu þúsund manns.

Starfsmenn flóðavarna meðfram allri strönd Hollands eru í viðbragðsstöðu vegna þessarar flóðbylgju og íbúar Danmerkur og Þýskalands hafa verið varaðir við afarslæmu veðri í þeim löndum í dag.

Nýjustu fréttir:

Lögreglan í Norfolk á Englandi hvetur nú alla 7.500 íbúa bæjarins Great Yarmouth að yfirgefa bæinn en sjávarflóðbylgjan hefur nú náð til bæjarins. Flóðbylgjan er ívið lægri en búist hafði verið við og mælist 2,5 metrar á hæð í stað tæplega 3 metra áður.

Stormurinn sem fylgir með flóðbylgjunni náði hámarki sínu nú rétt fyrir fréttatímann. Björgunarsveitir á svæðinu eru í viðbragðsstöðu og breski flugherinn hefur sent fjölda af þyrlum sínum í átt að hættusvæðunum sem eru í Essex, Kent, Lincolnshire auk Norfolk.

Hjördís Sturludóttir sem býr nálægt Thames ánni segir að hún og fjölskylda hennar hafi verið beðin að yfirgefa heimili sitt í gærkvöldi en þau ákveðið að doka við og sjá hverju framvindur þar sem þau búa á annari hæð hússins. Hún segir að lögregla og slökkviliðsmenn séu um allt og að slökkviliðið sé byrjað að dæla vatni frá hýbýlum fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×