Erlent

Flokkur Khaders gæti skipt sköpum í Danmörku

Naser Khader.
Naser Khader.

Einn umtalaðasti stjórnmálamaður Danmerkur hefur verið í fylgd lífvarða á vegum dönsku leyniþjónustunnar í tvö ár, eftir aðkomu sína að Múhameðsdeilunni. Í dag er hann formaður nýs stjórnmálaflokks sem gæti skipt sköpum í þingkosningunum þrettánda nóvember næstkomandi. Sighvatur Jónsson hitti Naser Khader í Danmörku.

Naser Khader - formaður Nýja bandalagsins flutti til Danmerkur ellefu ára og hefur búið hér í 33 ár. „Ég fékk tungumálakennslu í tvö ár og fór svo í almennan danskan skóla í 8. bekk. Í framhaldi tók ég stúdentspróf og meistaragráðu í stjórnmálafræði frá Kaupmannahafnarháskóla."

Stjórnmálaferill Khaders hófst með inngöngu í flokk róttækra vinstrimanna 1984. Þaðan gekk hann út í sumar og stofnaði Nýja bandalagið, miðjuflokk sem á að brúa bilið milli svokallaðra vinstri og hægri blokka í dönskum stjórnmálum.

„Mér finnst blokkapólitíkin ekki dönsk. Það er meira í takt við danska hefð að forsætisráðherrann þurfi að hafa fyrir því að fá meirihluta í ýmsum málum. Þetta hefur verið alltof þægilegt hjá forsætisráðherranum síðustu 6 ár," segir Khader.

„Mín skoðun er sú að önnur eins bylting hafi ekki sést frá því í upphafi áttunda áratugarins," segir Anders Samuelsen - meðstofnandi Nýja bandalagsins, aðspurður hvort segja megi að Nýja bandalagið hafi breytt hinu pólitíska landslagi í Danmörku.

„Margir fjármálasérfræðingar eru þeirrar skoðunar að hátekjuskattur geti hindrað farsæla efnahagsþróun," segir Khader, en Nýja bandalagið vill afnema hátekjuskatt.

Í Múhameðsdeilunni fyrir tveimur árum hvatti Khader aðra múslima til að sýna stillingu. Vegna líflátshótanna í kjölfarið fylgja honum enn lífverðir frá dönsku leyniþjónustunni. Meira að segja jólasveinninn kemst ekki nálægt honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×