Erlent

Ætla að kæra Tyrki til Mannréttindadómstólsins

Marco í fylgd með tyrkneskum lögreglumönnum.
Marco í fylgd með tyrkneskum lögreglumönnum. MYND/AFP

Foreldrar 17 ára gamals þýsks pilts íhuga nú að kæra tyrknesk stjórnvöld til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Pilturinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í Tyrklandi í 200 daga en hann er sakaður um að hafa átt mök við stúlku undir lögaldri. Í morgun ákvað dómstóll í Istanbúl að framlengja gæsluvarðhaldi yfir piltinum um óákveðinn tíma.

Málið hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi. Pilturinn, Marco, er sakaður um að hafa misnotað 13 ára gamla breska stúlku í síðastliðinum aprílmánuði. Þau kynntust þegar þau voru bæði í fríi með foreldrum sínum í Tyrklandi.

Rannsókn málsins hefur ítrekað tafist og því hefur fyrirtöku málsins margoft verið frestað. Að sögn Marco sagðist stúlkan vera 15 ára gömul þegar þau hittust.

Samkvæmt tyrkneskum lögum er hægt að halda manni í gæsluvarðhaldi í allt að tvö ár. Foreldrar Marco hafa margsinnis óskað eftir því að honum verði sleppt þar sem hann á nú við veikindi að stríða. Því hefur hingað til verið neitað. Vilja þau nú fara með málið til Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Verði Marco fundinn sekur getur hann átt yfir höfði sér allt að átta ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×