Erlent

Aukinn viðbúnaður í Rangún

Vopnaðir lögreglumenn umkringdu klaustur í Rangún höfuðborg Búrma í dag og á götum borgarinnar varð vart við herta öryggisgæslu. Í gær ræddu fulltrúar herforingjastjórnarinnar í Búrma við helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar.

Mánuður er liðinn síðan lögregla og her í Búrma barði niður uppreisn Búddamunka og almennings á götum Rangún. Að auki er búddískur helgidagur og yfirvöld ætla sér greinilega að koma í veg fyrir að mótmæli geti hafist á ný. Vopnaðir lögreglumenn gæta klaustra og hofa í borginni og sjást víða á götuhornum. Engin merki voru þó um mótmæli.

Í gær ræddi ráðherra verkalýðsmála við Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Hún hefur verið í stofufangelsi með hléum undanfarin átján ár. Ríkissjónvarpið í Búrma sýndi myndir af fundinum án hljóðs. Ráðherrann, Aung Kyi, hefur orð á sér fyrir hófsemi og hefur verið tilnefndur til viðræðna við Suu Kyi fyrir hönd herforingjastjórnarinnar.

Þó að ekki berist fréttir af mótmælaaðgerðum í Búrma þá minna búrmískir útlagar og stuðningsmenn þeirra enn á baráttuna fyrir lýðræði í Búrma. Þannig mótmælti hópur fólks í dag fyrir utan sendiráð Búrma í Maníla á Filippseyjum.

Ibrahim Gambari, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna gagnvart Búrma, er núna í Japan að ræða við ráðamenn um framhaldið. Hann ætlar að fara aftur til Búrma í byrjun nóvember og segist vonast til að komast þangað heldur fyrr en síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×