Erlent

Föngum sleppt til að berjast við eldana

Slökkviliðsmenn berjast við elda í Del Dios hverfinu í Escondido í Kaliforníu.
Slökkviliðsmenn berjast við elda í Del Dios hverfinu í Escondido í Kaliforníu. MYND/AFP

Slökkviliðsmenn sem berjast við skógareldana í Suður-Kaliforníu hafa fengið hjálp úr ýmsum áttum, meðal annars hefur föngum verið sleppt úr fangelsum í Kaliforníu, hjálp hefur borist frá Mexíkó auk annarra fylkja Bandaríkjanna.

Eldarnir hafa eyðilagt meira en 161 þúsund hektara lands og er ekki búist við að takist að ráða niðurlögum þeirra fyrr en vindar snúast, eða eldarnir ná til sjós.

Bruce Cartelli yfirmaður slökkviliðsins í San Diego sagði CNN að algjör eyðilegging blasi við á sumum stöðum í sýslunni, þar sem hundruð heimila hafi eyðilagst og margfalt fleiri skemmst. Hann segir eldana vera versta tilfelli sem hann muni eftir á 36 ára ferli sínum.

Einn er látinn af völdum eldanna og 70 slasaðir og þykir með ólíkindum að ekki skuli hafa farið verr.

Um hálf milljón manna hefur yfirgefið heimili sín.

Veðurfræðingar spá því að Santa Ana vindunum lægi seinni partinn í dag, en þeir hafa ýtt undir eldana og náð allt að 44 metrum á sekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×