Erlent

Valdabarátta öryggissveita ógnar stöðugleika Rússlands

Stöðugleiki hins rússneska samfélags er í hættu ef marka má opið bréf eftir Viktor Cherkesov yfirmann fíkniefnalögreglunnar þar í landi sem birtist í blaðinu Kommersant í vikunni.

Viktor Cherkesov segir í bréfi sínu að valdabarátta sem nú geysar innan lögreglu- og öryggissveita landsins geti hæglega brotist út í allsherjarstríð um völd og áhrif. Yfirmenn þessara sveita hafa mikil ítök innan stjórnar Vladimir Putins svo og menn sem áður hafa þjónað í stofnunum á borð við KGB og arfaka þess FSB en þeir ganga almennt undir nafninu silovikis.

Sjálfur þjónaði Viktor í ein 25 ár í KGB og síðar FSB áður en hann var útnefndur í stöðu yfirmanns fíkniefnalögreglunnar. Breska blaðið The Indepentant fjallar um bréf hans í dag en þar kemur fram að ástæða þess að Viktor skrifar það er að þrír af undirmönnum hans voru nýlega handteknir af öryggislögreglunni og sakaðir um ýmis afbrot þar á meðal fjárkúgun.

Viktor segir að þeir séu saklausir og að handtaka þeirra hafi verið hefnd fyrir að þeir upplýstu um mikla spillingu innan FSB á síðasta ári.

Stjórnmálaskýrandinn Alexei Makarkin segir í samtali við Indepentent að innri hringur Putins sé fullur af silovikis og það sé erfitt að festa hendur á hvaða áhrif á völd þeir hafi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×