Erlent

Líbanskur þingmaður borinn til grafar

Þórir Guðmundsson skrifar

Útför þingmannsins sem lést í bílsprengju í Líbanon í fyrradag fór fram í Beirút í dag. Fjölskylda og stuðningsmenn þingmannsins, Antoine Ghanem, voru viðstödd útförina í einu af úthverfum Beirútborgar.

Ghanem var einn þeirra stjórnmálamanna sem vildi minnka ítök Sýrlendinga í Líbanon og flestir telja að sú afstaða hans hafi orðið honum að aldurtila. Hann er sjöundi maðurinn úr röðum andstæðinga Sýrlendinga í Líbanon - og fjórði þingmaðurinn í þeim hópi - sem fellur fyrir hendi morðingja síðan 2005. Sýrlendingar segjast ekkert tengjast þessu morðum.

Myndband sem tekið var rétt eftir sprengjuna á miðvikudag sýnir hvernig slökkviliðsmenn og óbreyttir borgarar reyndu að slökkva eldana. Hafi markmið tilræðismannanna verið að myrða Ghanem þá víluðu þeir ekki fyrir sér að myrða og meiða aðra sem nálægir voru.

Fjórir aðrir en Ghanem létu lífið í tilræðinu og nítján særðust þegar sprengjan sprakk í íbúða- og verslanahverfinu Sin el Fil í austurhluta Beirútborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×