Erlent

Systir lestarstöðvarstúlkunnar hræddist föðurinn

Qian Xun Xue var í fyrstu nefnd Pumpkin eftir merki á fötum hennar.
Qian Xun Xue var í fyrstu nefnd Pumpkin eftir merki á fötum hennar. MYND/AFP

Grace Xue hálfsystir stúlkunnar sem var yfirgefin á lestarstöð í Ástralíu á laugardag segir að hún hafi áhyggjur af líðan Qian systur sinnar og að sem barn hafi hún óttast föður sinn. Hann hafi yfirgefið hana einungis tveimur mánuðum eftir komuna til Nýja Sjálands og hún hafi ekki átt í nein hús að venda.

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur föðurnum Xue Naiyin sem sást á myndbandi yfirgefa stúlkuna á lestarstöð. Hann mun nú vera í Bandaríkjunum.

Í ódagsettu myndbandi sem AB fréttastofan hefur undir höndum segir faðirinn að eldri dóttirin hafi hlaupið að heiman árið 2002. Ekki er ljóst hvenær myndbandið er gert, en í því segist hann vera að leita hennar. Stúlkan segir sjálf að hann hafi yfirgefið hana. Í myndbrotinu segir hann að ábyrgð hans liggi í því að gefa ungabarninu meiri föðurást.

Xue er 54 ára. Hann æfði bardagaíþróttina tai chi og er vel þekktur í kínverska samfélaginu í Auckland, stærstu borg á Nýja Sjálandi. Lögregla segir hann eiga sögu ofbeldishegðunar.

Grace segist ekki vera viss um að geta fyrirgefið föður sínum. Hún segist hissa á því hvernig hann hafi yfirgefið Qian, en ekki hissa að hann hafi gert það. Hún hefur nú sett á fót sjóð og vefsíðu til hjálpar systur sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×