Erlent

Franska stjórnin ósammála um innflytjendafrumvarp

Þórir Guðmundsson skrifar

Ráðherrar í Frakklandi hafa brugðist ókvæða við frumvarpi eigin stjórnar um að skylda innflytjendur til að fara í DNA rannsókn og frönskupróf.

Innflytjendaráðherra frönsku íhaldsstjórnarinnar ber ábyrgð á frumvarpinu en utanríkisráðherrann og ráðherra sveitarstjórnamála hafa þegar lýst andúð á sumum ákvæðum þess.

Verði frumvarpið að lögum þurfa innflytjendur sem koma til Frakklands í því skyni að sameinast fjölskyldum sínum þar að sanna skyldleika sinn með því að gangast undir DNA rannsókn. Það er til að koma í veg fyrir svik. Þá er gert ráð fyrir að innflytjendur þurfi að sýna fram á að þeir kunni frönsku.

Fadela Amara, ráðherra sveitarstjórnamála sem er af alsírskum uppruna, segst vera hneyksluð á frumvarpinu - og að það sé meiðandi fyrir innflytjendur. Sarkozy forseti hefur lagt áherslu á harðlínustefnu gegn ólöglegum innflytjendum. Hann hefur meðal annars krafist þess að sveitarstjórnir aðstoði við að koma upp um innflytjendur sem séu ólöglegir í Frakklandi og hefur sett þeim það markmið að vísa 25.000 manns úr landi fyrir áramót.

Átta borgarstjórar á Parísarsvæðinu sögðust í dag mundu standa gegn slíkum áformum, enda hefðu þeir engan áhuga á að ráðast gegn fólki sem væri vinnandi eða í skóla í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×