Erlent

Simpson í fangelsi fyrir vopnað rán

Þórir Guðmundsson skrifar

OJ Simpson, sem var sýknaður af morðákæru í Bandaríkjunum fyrir þrettán árum, er nú kominn í fangelsi fyrir vopnað rán.

Simpson var handtekinn á sunnudag og tekinn í járnum á lögreglustöð í Las Vegas. Handtakan var á grundvelli gruns um þátttöku í vopnuðu ráni, en fyrir það er hægt að dæma hann í margra áratuga fangelsi.

Simpson viðurkennir sjálfur að hafa farið inn á hótelherbergi í Las Vegas, þar sem ýmsir munir sem tengjast ferlil hans sem íþróttamanns og kvikmyndastjörnu voru til sýnis. Hann segir hins vegar að munirnir séu sínir með réttu, en óprúttnir minjagripasalar komist yfir þá.

Simpson var árið 1994 sýknaður af ákærum um morð á fyrrum eiginkonu sinni og vini hennar. Sýknudómurinn þótti með ólíkindum, svo sterk voru sönnunargögnin gegn honum, en ef þetta mál gengur lengra þá kann heimsóknin á hótelherbergið í Las Vegas að reynast Simpson dýrkeyptara en morðákæran á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×