Erlent

Gates hafnar því að Íraksstríðið snúist um olíu

MYND/AP

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vísaði í dag á bug þeim fullyrðingum Alans Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóra landsins, að ráðist hefði verið inn í Írak vegna olíuhagsmuna Vesturveldanna en ekki til þess að frelsa Íraka undan oki Saddams Husseins. Þessi orð lætur Greenspan falla í nýrri sjálfsævisögu sem kemur út í vikunni.

Gates var gestur í þætti á ABC-sjónvarpsstöðinni í dag þar sem hann sagðist bera mikla virðingu fyrir Greenspan en hann væri honum óssamála. „Ég kom ekki að því að taka ákvörðun um að hefja stríðið og ég veit að sömu ásakanir voru settar fram um Flóabarbardaga árið 1991. Ég trúi því hreinlega ekki að það sé rétt," sagði Gates og bætti við: „Ég tel að þetta hafi snúist um stöðugleika við Persaflóa. Þetta snýst um harðsnúnar ríkisstjórnir sem reyna að þróa gereyðingarvopn. Þetta snýst um grimma einræðisherra."

Greenspan, sem er áttatíu og eins árs, er mikilsmetinn flokksbróðir Bush Bandaríkjaforseta. Hann stýrði Seðlabanka Bandaríkjanna við góðan orðstír í átján ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×