Erlent

Krefjast aðgerða í Súdan

Hópur súdanskra ríkisborgara kom saman í Róm í dag og krafðist þess að endi yrði bundinn á átökin í Darfur.
Hópur súdanskra ríkisborgara kom saman í Róm í dag og krafðist þess að endi yrði bundinn á átökin í Darfur. MYND/AP

Efnt verður til mótmæla í um 30 löndum í dag til þess að vekja athygli á því ástandi sem ríkir í Darfur-héraði. Þar hafa um 200 þúsund manns látist á síðustu fjórum árum í átökum uppreisnarmanna og arabískra vígasveita sem sagðar eru njóta stuðnings ríkisstjórnarinnar.

Enn fremur hafa um tvær milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín vegna átakanna en vígasveitirnar eru sagðar fara um með fjöldamorðum og ránum á svæðum svartra íbúa Darfur.

Með mótmælunum í dag, sem fram fara í flestum af stærstu borgum heims, er ætlunin að eggja helstu leiðtoga heims að grípa í taumana en þeir koma saman til fundar í næstu viku á vegum Sameinuðu þjóðanna. Samtökin hafa þegar ákveðið að senda um 26 þúsund manna friðargæslulið til Darfur til þess að reyna að binda enda á átökin.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur lýst því yfir að hann vilji að friðargæsluliðarnir verði komnir til Súdans fyrir árslok. Þá hefur hann hótað súdönskum stjórnvöldum refsiaðgerðum sýni þau ekki samvinnu í málinu, en þau hafa verið treg til að hleypa öðrum friðargæsluliðum en afrískum inn í landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×