Erlent

Þriðjungur komst lífs af úr flugslysi

Lítið var eftir af flugvélinni þegar búið var að slökkva eldinn í henni.
Lítið var eftir af flugvélinni þegar búið var að slökkva eldinn í henni. MYND/AP

Fjörutíu og þrír eru nú sagðir hafa komist lífs af þegar farþegaflugvél frá taílenska flugfélaginu One-Two-Go hrapaði á Phuket-eyju í suðurhluta Taílands í morgun. Ríkisstjóri Phuket-eyju segir að um helmingur farþeganna hafi verið útlendingar og hafa yfirvöld staðfest að átta Bretar, tveir Ástralar og sjö Taílendingar hafi verið í hópi þeirra sem komust lífs af. Þá segir sænska blaðið Aftonbladet að tveir Svíar hafi lifað slysið af.

66 farþegar eru látnir en það er helmingur farþeganna í vélinni og meðal hinna látnu eru menn frá Ísrael, Írlandi, Bretlandi og Ástralíu. Þá voru fimm í áhöfn flugvélarinnar og voru þeir allir útlendingar. Ekkert liggur fyrir um afdrif þeirra.

Utanríkisráðuneytið kannar nú hvort einhver Íslendingur hafi verið farþegi í vélinni, en Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri hafði ekki heyrt af slysinu þegar Vísir hafði samband við hann eftir hádegi.

Vélin var á leið frá Bangkok en þegar hún kom til lendingar á Phuket óskaði flugstjórinn eftir því að hætta við hana, en slæmt veður var á staðnum, rigning og hvasviðri. Það tókst hins vegar ekki og skall vélin til jarðar og rann út af flugbrautinni og brotnaði í tvennt. Í kjölfarið kviknaði í henni. Vélin var af gerðinni McDonnel-Douglas MD-82.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×