Erlent

Lögregla verndar Vilks þegar hann snýr aftur heim

Teikningum Vilks hefur verið mótmælt víða um hinn íslamska heim, þar á meðal í Pakistan.
Teikningum Vilks hefur verið mótmælt víða um hinn íslamska heim, þar á meðal í Pakistan. MYND/AP

Sænski listamaðurinn Lars Vilks, sem hótað hefur verið lífláti vegna teikninga af Múhameð spámanni, snýr aftur til Svíþjóðar í dag eftir að hafa dvalið að undanförnu í Þýskalandi.

Forsprakki hóps tengdum al-Qaida í Írak setti í gær 100 þúsund dollara til höfuðs Vilks fyrir að hafa teiknað mynd af Múhameð í líki hunds en myndirnar birtust í héraðsblaðinu Nerikes Allehanda í Svíþjóð.

Vegna líflátshótananna hyggst lögregla taka á móti Vilks þegar hann kemur til landsins í dag og veita honum vernd. Sjálfur lætur Vilks sér fátt um finnast og segir í samtali við sænska ríkisútvarpið að hann muni snúa aftur á heimili sitt á Skáni en þar býr hann á fremur afskekktum stað. „Ég er því auðvelt skotmark," segir Vilks.

Vilks er ekki sá eini sem al-Qaida hefur hótað því 50 þúsund dollarar voru einnig settir til höfuðs ritstjóra Nerikes Allehanda. Enn fremur hóta hryðjuverkasamtökin að láta til skarar skríða gegn sænskum stórfyrirtækjum eins og IKEA, Ericsson og Volvo biðjist sænsk stjórnvöld ekki afsökunar á myndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×