Erlent

Trúarleg skylda stúlku að giftast frænda sínum

Leiðtogi stærsta sértrúarsafnaðar Bandaríkjanna sem styður fjöldkvæni sagði fjórtán ára stúlku sem hann hafði nýlega gift nítjan ára frænda sínum að það væri trúarleg skylda hennar að gefa eiginmanninum hug sinn, líkama og sál. Þessu héldu saksóknarar í máli stúlkunnar gegn safnaðarleiðtoganum fram fyrir rétti í Utah í dag.

Safnaðarleiðtoginn, hinn fimmtugi Warren Jeffs, er ákærður fyrir að aðstoða við tvær nauðganir, fyrir það að hafa komið á hjónabandi milli frændsystkinanna. Hann neitar sök. Jeffs er leiðtogi 7500 manna safnaðar Mormóna sem stunda fjökvæni.

Saksóknararnir sögðu að stúlkan hefði grátbeðið hann að gifta sig ekki. Henni hefði þótt hún of ung, og ekki hugnast það að maðurinn væri náfrændi sinn. Jeffs hefði svarað henni með því að það væri skylda hennar að giftast honum.

Jeffs var eitt sinn grunnskólakennari stúlkunnar, en hún ólst upp í Mormónasamfélaginu með móður sinni, fósturföður, og fimmtán öðrum eiginkonum hans.

Þrátt fyrir að fjölkvæni sé ólöglegt í Bandaríkjunum er talið að um 37 þúsund manns í Vesturhluta Bandaríkjanna sé í hjónabandi  með fleiri en einum maka.

Verði Jeffs fundinn sekur á yfir höfði sér allt frá 5 ára fangelsi til lífstíðardóms fyrir hvort brot. Eiginmaðurinn hefur ekki verið kærður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×