Erlent

Lítill árangur í Írak, segir í skýrslu Hvíta hússins

Skýrsla frá Hvíta húsinu í Bandaríkjunum gefur til kynna að lítið hafi áunnist í stríðinu í Írak, þrátt fyrir orð Bush forseta til hins gagnstæða í gærkvöldi.

Ef bandarískir hermenn í Írak, sem fylgdust með sjónvarpsræðu Bush í gærkvöldi, áttu von á skjótri heimkvaðningu þá urðu þeir fyrir vonbrigðum. Forsetinn boðaði að í júlí á næsta ári yrði fjöldi hermanna í Írak sá sami og áður en fjölgað var í liðinu fyrr á þessu ári.

Bush segir að brottflutningur hermanna verði í takt við velgengni í Írak.En velgengni er vart orðið til að lýsa árangri Bandaríkjamanna í Írak. Í nýrri skýrslu, sem Hvíta húsið þurfti samkvæmt lögum að skila Bandaríkjaþingi í dag, kemur fram að af átján formlegum markmiðum sem sett voru í sumar hefur einungis tekist að uppfylla átta.

Það eru ekki einu slæmu fréttirnar. Í dag var borinn til grafar súnníaforingi sem var myrtur einungis nokkrum dögum eftir að eiga fund með Bush þegar Bandaríkjaforseti heimsótti Írak í síðustu viku.

Demokratar vilja snúa baki við herleiðangrinum í Írak. John Edwards, sem keppir að útnefningu demokrata í forsetakosningum á næsta ári, segir að þingið verði að setja Bush stólinn fyrir dyrnar. Binda verði enda á stríðið.

Demokratar líta svo á að stríðið í Íran hafi staðið í fjögur og hálft ár, kostað óheyrilega fjármuni og líf 3.800 bandarískra hermanna. Þeir hafa samt ekki næg atkvæði í öldungadeildinni til að stríðsreksturinn og því hefur Bush forseti ennþá undirtökin í glímunni um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×