Erlent

Sendiráðið ævareitt yfir ummælunum

Jens Blauenfeldt
Jens Blauenfeldt
Bandaríska sendiráðið í Danmörku er langt því frá sátt við ummæli þekkts dansks sjónvarpsmanns um hvernig honum varð innanbrjósts þegar hann frétti af hryðjuverkaárásunum 11. september 2001.  

Sjónvarpsmaðurinn, Jens Blauenfeldt, stjórnaði síðdegisþætti á DR1 þar sem þess var minnst að sex ár voru liðin frá hryðjuverkaárásinni á tvíburaturnanna. Þar sagði hann meðal annars; "Það er dálítið vandræðalegt að viðurkenna það, en ég hugsaði með mér; Hey þetta eru ameríkanarnir. Nú fá þeir skell. Þeir hafa virkilega gott af því." Þá bætti hann við að loksins hefði einhver svarað fyrir sig.

,,Ummæli hr. Blauenfeldts, um að Ameríka hafi átt það skilið að ráðist væri á hana þann 11. september eru hneykslanleg. Hver einasti Bandaríkjamaður, og ekki síst ættingjar fórnarlambanna, munu fá áfall þegar þeir frétta að umsjónarmaður þáttar geti sagt svona í dönsku sjónvarpi" sagði Alistair Thomson, talsmaður sendiráðsins í yfirlýsingu.

Sjónvarpsstöðin ákvað vegna ummælanna að endursýna þáttinn ekki eins og yfirleitt er gert, en myndbrotið má ennþá nálgast á YouTube. Þar er það einnig til í annarri útgáfu, þar sem ummælin hafa verið klippt saman við myndir af brennandi turnunum.

Blauenfeldt hefur sagst vera leiður yfir ummælunum. Hann sé á engann hátt á móti Bandaríkjunum, en skilji að kannski hafi mátt túlka orð hans þannig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×