Erlent

Ísland í tísku hjá breskum háskólanemum

Þórir Guðmundsson skrifar

Á þriðja tug manna skrá sig í íslenskunám við háskólann í Leeds í Bretlandi á hverju ári. Yfirmenn háskólans telja að þeim muni fjölga í ár af því að Ísland sé komið í tísku.

Fimm þúsund íslenskar bækur, sem voru í eigu Boga Melsteð sagnfræðings sem lést 1929, eru hornsteinn þessa lærdómsseturs íslenskra fræða við Leeds háskóla.

Tveir prófessorar hafa gert kennslu í íslenskum fræðum að ævistarfi sínu og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, viðurkenndi það starf með því að sæma prófessorana Rory McTurk og Andrew Wawn íslensku Fálkaorðunni.

Ólafur Ragnar vill styrkjakerfi sem styðji við erlenda menntamenn sem leggja rækt við íslenska menningu og tungu.

Þó að bækurnar á bókasafni háskólans í Leeds séu fornar þá er ekkert gamaldags við áhuga breskra námsmanna á Íslandi þessa dagana. Wawn prófessor segir að Ísland sé "kúl" meðal unga fólksins og erfitt sé að finna 18 ára nýnema sem ekki hafi heyrt af Íslandi og Íslendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×