Erlent

Níu dóu í skjálftum í Indónesíu

Þórir Guðmundsson skrifar

Harður eftirskjálfti olli mikilli skelfingu í suðaustur-Asíu í dag. Önnur viðvörun um hugsanlega flóðbylgju var gefin út og íbúar nálægt skjálftasvæðinu flúðu í ofboði upp í land.

Að minnsta kosti níu manns létu lífið og 49 slösuðust í skjálftunum, þeim sem varð í gær og mældist 8,4 stig og eftirskjálftanum í morgun sem mældist 7,8 stig.

Lítil flóðbylgja kom á land í borginni Padang á Súmötru, þar sem mikil eyðilegging varð í flóðbylgjunum miklu í desember 2004. Í þetta sinn féllu fimm stórar byggingar - þeirra á meðal moskur og einn skóli.

Læknar önnuðust sjúklinga undir berum himni af ótta við að spítalinn væri ótraustur. Þúsundir manna flúðu láglendi við ströndina upp í fjalllendi innar í landi.

Vísindamenn fylgjast vel með hreyfingum sjávar í kjölfar jarðskjálftanna. Viðvaranir voru gefnar út bæði í suðaustur Asíu og við strendur Afríku. Á viðvörunarmiðstöði á Hawaii urðu menn varir við litla bylgju. Óttast var að Jólaeyja yrði fyrir flóðbylgju en af því varð ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×