Erlent

SAS tapar allt að 150 milljónum á dag vegna Dash-vandræða

Norræna flugfélagið SAS tapar á bilinu 100-150 milljónum á dag vegna þeirrar ákvörðunar forsvarsmanna félagsins að setja allar Dash 8 vélarí flugbann eftir ítrekaðar bilanir í lendingarbúnaði.

Síðast í morgun brotlenti slík vél frá SAS í Vilníus þegar hjólabúnaður gaf sig í lendingu en engan sakaði í slysinu. Fram kemur á danska fréttavefnum Börsen að SAS hafi þurft að aflýsa um 100 flugferðum vegna vandræðanna og ekki liggur fyrir hvenær vélarnar fá aftur leyfi til að taka á loft. Framleiðendur vélarinnar, Bombardier, hafa sagt að það gæti tekið margar vikur að rannsaka hvað sé að tegundinni en önnur vél sömu tegundar brotlenti í Álaborg á sunnudag.

Forsvarsmenn SAS segja tapið á dag 10-15 milljónir sænskra króna, jafnvirði um 100-150 milljóna íslenskra króna. Félagið leitar nú að leiguflugvélum til þess að draga úr skaðanum bæði fyrir sig og farþega félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×