Erlent

Lögreglan í Bretlandi leitar enn að morðingja Rhys Jones

Breska lögreglan hefur sleppt tveimur unglingspiltum úr haldi sem handteknir voru í gær grunaðir um að hafa myrt hinn 11 ára Rhys Jones. Morðið hefur vakið upp mikinn óhug í Bretlandi.

Rhys Jones var skotinn í hálsinn á miðvikudaginn þegar hann var að spila fótbolta með vinum sínum á bílastæði í Liverpool. Vitni segja að morðinginn hafi verið á hjóli og með lambhúshettu sem huldi andlit hans. Hann skaut þremur skotum í átt að Rhys áður en hann hjólaði í burtu.

Lögreglan í Bretlandi gaf í morgun út lýsingu á morðingjanum. Þar er hann sagður vera hvítur, mjósleginn og á aldrinum þrettán til fimmtán ára.

Í gærmorgun handtók lögreglan í Liverpool tvo unglingspilta, annar þeirra fjórtán ára og hinn átján ára, vegna morðsins. Þeir voru yfirheyrðir í gær en sleppt að þeim loknum.

 

Handahófskennt morð
Drengir leggja blóm til minningar um Rhys Jones.MYND/AFP

Morðið hefur vakið upp mikinn óhug í Bretlandi enda er talið að um handhófskennt morð hafi verið að ræða.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi morðið í ávarpi gær og sagði breta slegna yfir því.

David Cameron, formaður breska íhaldsflokksins, gagnrýndi ríkisstjórnina og sagði að almennir borgarar væru ekki lengur óhultir fyrir glæpamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×