Erlent

Innflutningssbanni á breskar landbúnaðarvörur aflétt

Sett var upp sóttvarnarsvæði í kringum búin þar sem smitið greindist.
Sett var upp sóttvarnarsvæði í kringum búin þar sem smitið greindist. MYND/AFP

Evrópusambandið hefur ákveðið að aflétta banni á innflutningi á bresku nautakjöti, mjólkurafurðum og lifandi skepnum. Bannið mun þó gilda áfram um afurðir frá Surrey. Evrópusambandið setti bannið á eftir að gin- og klaufaveiki greindist í nautgripum í Surrey á Englandi.

Gin- og klaufaveikismit greindist í nautgripum á bóndabæ nærri Guildford í Surrey í byrjun ágústmánaðar. Í kjölfarið settu bresk yfirvöld bann við flutningi búfénaðar innanlands og þá bannaði Evrópusambandið allan innflutning á nautakjöti, mjólkurafurðum og lifandi skepnum frá Bretlandi.

Alls greindist gin- og klaufaveikismit á tveimur búum í Surrey en sjúkdómurinn hefur ekki greinst annars staðar. Svo virðist sem breskum yfirvöldum hafi tekist að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Opnað verður fyrir útflutning á bresku nautakjöti, mjólkurafurðum og lifandi skepnum til landa Evrópusambandsins næstkomandi laugardag. Bannið mun þó gilda áfram fyrir svæði í kringum bóndabæinn í Surrey þar sem smitið greindist fyrst.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×