Erlent

Rændu foreldrunum en skildu börnin eftir

Frá Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur.
Frá Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur. MYND/365

Óprúttnir menn vopnaðir skambyssum réðust inn á heimili fjögurra manna fjölskyldu í bænum Ganlöse í Danmörku í nótt og höfðu húsráðendur á brott með sér. Mennirnir létu hins vegar tvö sofandi ungabörn á heimilinu í friði. Þeir skeyttu engu um það þó að móðir barnanna grátbæði um að fá að vera eftir til að passa upp á börnin.

Mennirnir, sem voru þrír eða fjórir, brutust inn á heimili fjölskyldunnar í nótt og kefluðu foreldrana. Síðan var þeim hent inn í bifreið og ekið út úr bænum. Eftir stuttan bíltúr var þeim hent út úr bílnum við vegarkant. Ökumaður sem þar átti leið hjá skömmu síðar kom fólkinu til aðstoðar.

Lögreglan fann yfirgefna bifreið mannanna við skóla í bænum Værebro í morgun og var þá búið að kveikja í henni.

Samkvæmt dönsku lögreglunni voru mennirnir allir á þrítugsaldri og töluðu dönsku með erlendum hreim. Að sögn lögreglu vildu mennirnir með ráninu komast yfir aðgangskóða að raftækjaverksmiðju í Norður-Sjálandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×