Erlent

Myndband af þýskum gísl sent fjölmiðlum

Myndbandið var sent fjölmiðlum í gær.
Myndbandið var sent fjölmiðlum í gær. MYND/AFP

Ræningjar þýsks verkfræðings sem rænt var í Afganistan fyrir rúmum mánuði sendu fjölmiðlum í gær myndband með manninum. Þar biðlar maðurinn til þýskra stjórnvalda um að þau dragi herlið sitt í Afganistan til baka til að honum verði sleppt. Verkfræðingurinn er hjartveikur og í myndbandinu segist hann einungis eiga eftir þriggja daga skammt af hjartalyfi sínu.

Þjóðverjanum, sem heitir Rudolph Blechschmidt, var rænt ásamt öðrum þýskum verkfræðingi og fimm Afgönum um miðjan júlímánuð. Hinn Þjóðverjinn fékk hins vegar hjartaáfall skömmu eftir að honum var rænt og var í kjölfarið skotinn af ræningjum sínum.

Í myndandinu sem sem sent var fjölmiðlum í gær óskar maðurinn eftir aðstoð frá fjölskyldu sinni og þýskum stjórnvöldum til að honum verði sleppt. Hann segist vera í haldi Talibana á óþekktum stað í Afganistan í um 3 þúsund metra hæð.

Ræningjar mannsins hafa krafist þess að Þjóðverjar dragi herlið sitt í Afganistan til baka og að tíu Talibönum verði sleppt úr fangelsi.

Þýsk stjórnvöld hafa hinga til neitað kröfu ræningjanna þrátt fyrir vaxandi þrýsting heimafyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×