Erlent

Demókratar gagnrýna ræðu Bush um Íraksstríðið

MYND/AFP

Leiðtogar Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt Bush bandaríkjaforseta harðlega fyrir ræðu sem hann hélt um Íraksstríðið í gær. Í ræðunni líkti Bush stríðinu í Írak við Víetnamstríðið.

Bush hélt ræðuna fyrir fyrrverandi hermenn í Missouri í Bandaríkjunum. Þar varaði forsetinn við því að Bandaríkjamenn drægju herlið sitt til baka frá Írak án þess að ganga frá öllum lausum endum. Líkti hann stríðinu í Írak við Víetnamstríðið og sagði ótímabært brotthvarf hersins nú geta valdið svipuðu umróti og manntjóni og varð í Suðaustur-Asíu við lok Víetnamstríðsins. Bað Bush bandarísku þjóðina um að sýna þolinmæði og lofaði jafnframt árangri.

Leiðtogar Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt ræðu Bush harðlega. John Kerry, fyrrum forsetaframbjóðandi demókrataflokksins, sagði ræðu Bush óábyrga og í litlum tengslum við raunveruleikann. Sagði hann ennfremur bandaríska hermenn fasta í borgarastríði í Írak og að engin pólitísk lausn væri í sjónmáli. Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, ásakaði Bush fyrir að reyna að afvegaleiða bandarísku þjóðina og sagði stríðið í Írak eitt mesta klúður sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×