Erlent

Blind kona slær holu í höggi

MYND/Getty Images

Bandarísk kona, sem hefur verið blind í aldarfjórðung, gerði sér lítið fyrir og sló holu í höggi á golfvelli í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum fyrir skemmstu. Konan sló golfkúluna meira en 131 metra áður en hún féll beint ofan í holuna.

Sheila Drummond, sem er 53 ára gömul, missti sjónina árið 1982 sökum sykursýki. Hún hefur spilað golf í fjölmörg ár og situr meðal annars í stjórn Samtaka blindra golfspilara í Bandaríkjunum.

„Ég sló kúluna eftir að meðspilarar mínir voru búnir að segja mér í hvaða átt ég ætti að slá og hversu langt væri í holuna," sagði Sheila í samtali við fjölmiðla. „Höggið var mjög gott en við vorum engu að síður mjög hissa þegar við uppgötvuðum að þetta var hola í höggi."

Sheila hefur nú verið skráð sem fyrsta blinda konan sem fer holu í höggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×