Erlent

Hillary gerir sér grein fyrir óvinsældum sínum

Hillary Clinton, frambjóðandi í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og fyrrverandi forsetafrú, viðurkenndi í dag að mörgum kjósendum væri illa við sig. Hún segir ástæðuna vera áralangar árásir Repúblikana í sinn garð.

Clinton lét þessi orð falla í kappræðum frambjóðenda í hinu mikilvæga fylki Iowa í dag. Ummælin koma kjölfar þess að Karl Rove, fráfarandi aðalráðgjafi Bush Bandaríkjaforseta, sagði í viðtali að Clinton væri veikur forsetaframbjóðandi vegna þess hve mörgum sé illa við hana.

„Ég held ekki að Karl Rove muni lýsa yfir stuðningi við mig," sagði Hillary á fundinum. „En mér finns áhugavert að sjá að hann virðist vera með mig á heilanum. Ég held að ástæðan fyrir því sé sú að við vitum hvernig á að sigra," sagði forsetafrúin fyrrverandi, sem einnig gæti verið framtíðar forseti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×