Erlent

Þýskri konu rænt í Kabúl

Þýskri konu var rænt af óþekktum byssumönnum á götum Kabúl, höfuðborgar Afganistans. Konan, sem er talin vera hjálparstarfsmaður, var brottnumin í suðvesturhluta borgarinnar þar sem mörg hjálparsamtök hafa aðsetur. Engar frekari upplýsingar hafa verið gefnar varðandi málið að svo stöddu, en innanríkisráðuneyti landsins skýrði frá mannráninu fyrir skömmu.

Fjölmörgum útlendingum hefur verið rænt í Kabúl á síðustu misserum og í síðasta mánuði var tveimur þýskum hjálparstarfsmönnum rænt auk fimm afganskra samstarfsmanna þeirra. Annar Þjóðverjinn fannst skömmu síðar látinn af skotsárum, en hinir eru enn í haldi.

Þá er 21 kristniboða frá Suður Kóreu enn haldið föngnum í landinu. Talsmaður Talíbana sagði í dag að samningaviðræður hefðu farið út um þúfur og að nú væru foringjar Talíbana að íhuga hvert framhald málsins verði, en þeir hafa hótað að taka gíslana af lífi verði ekki orðið við krögum þeirra um að leysa félaga þeirra úr haldi í Kabúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×